MÚSÍMÚS

Bjartsýni er smitandi, skortur á henni líka!

sunnudagur, september 24, 2006

Vetur og snjór

Ég verð eiginlega að viðurkenna það að ég er farin að hlakka til vetrarins. Ég vona að þetta verði alvöru vetur, með fullt af snjó og litlu slabbi :) Sjáum til hvort þetta breytist eitthvað þegar nær dregur.

laugardagur, september 23, 2006

Kaffi

Það eru rúm 8 ár síðan ég byrjaði að drekka kaffi. Ég man að á þeim tíma átti ég kærasta sem var mikill kaffidrykkjumaður, og honum fannst alveg ómögulegt að ég skyldi ekki drekka þennan eðal drykk. Hann stakk uppá því að ég myndi smakka swiss mokka, sem er einskonar kakó með kaffi og rjóma. Það vandist vel en ég var ekki alveg á því að ég myndi nokkurn tímann hætta mér í alvöruna.
Nema einn daginn sátum við með nokkrum öðrum á kaffihúsi og einhver tekur af skarið og pantar kaffi á línuna. Ég var náttúrulega svo feimin að ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að gefa frá mér píp um að ég drykki ekki "alvöru" kaffi. Ég sat því uppi með kaffi í bolla og 8 augu sem biðu eftir að ég drykki þeim til samlætis. Ég smellti tveimur molum í bollann, hrærði vel í og lét svo vaða. Ég get ekki sagt að þetta hafi verið gott svona í fyrstu skiptin, en þetta vandist ansi fljótt. Nema aumingja kærastinn sem var háskólakúristi í erfiðu námi þurfti að hafa mig í koffínvímu með óstöðvandi munnræpu við hlið sér til 3-4 á nóttunni. Sambandið entist ekki lengi...

Fyrir nokkrum mánuðum ákvað ég að taka mér smá kaffihvíld. Ég var farin að drekka óhóflega mikið kaffi í vinnunni, 7-8 bolla á dag. Svo ég keypti mér koffínlaust te og fór að venja mig frekar á það. Það gekk ágætlega, en ég var hálf dottandi allan daginn fyrir framan tölvuna í vinnunni fyrstu vikuna.
Fyrir ca. viku síðan hitti ég vinkonu mína á kaffihúsi í hádeginu og ákveð að prófa að fá mér kaffibolla. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði restina af deginum, ég iðaði öll og gat ekki setið kyrr, fékk meira að segja hálfgerðan spennuhnút í magann ofan á alltsaman. Þannig að ég er ennþá í kaffipásu og ætla mér að vera í henni eitthvað lengur.

Hafið það gott í dag :)

fimmtudagur, september 21, 2006

ónefnt

Oj ég er orðin svo ryðguð við þetta blogg. Annars skruppum ég og Hörður uppí Mosó til mömmu og pabba í gær, átum KFC og létum dekra svolítið við okkur.
Frk.óákveðin þurfti endilega að reka augun í svolítið fallegt hús í Arnartanganum, sem mig langar mikið að eignast. Hvort af því verður er undir honum Árna mínum komið, hann er ekkert svakalega spenntur fyrir því að yfirgefa borgina. Ég sem var alveg á því að ég færi ekki aftur í Mosfellsbæinn.
En annars eru þetta bara smá draumórar, það er ekkert ákveðið enn. Gott að hafa augun opin.

sunnudagur, september 17, 2006

Heimsins virkasti bloggari

Hvar tek ég á móti verðlaununum?!
Jæja.... ætti ég að fara að blása smá lífi í þetta blessaða blogg :) Fínt að taka sér svona tæpt árshlé, hvíla puttana og svona.
Annars ætla ég ekki að fara að telja upp allt sem á daga mína hefur drifið allan þennan tíma á meðan ég var í "hvíld", en það hefur ýmislegt breyst og margt gott gerst.

Það eru miklar spekúleringar í gangi þessa dagana hjá okkur hjúunum í Hlíðunum, hvort við eigum að flytja í stærri og fínni íbúð eða gera litla risið okkar upp. Við virðumst alltaf enda á því að vera áfram í risinu og gera þar allt spikk og span. Það er náttúrulega geðveiki að fjárfesta í einni meðalstórri, ágætlega útlítandi íbúð miðsvæðis í Reykjavík í dag! 30 mills, dreg þær bara uppúr rassvasanum!

Látum þetta gott heita, nú ætla ég að halda áfram að vinna í svona 30 mín, til eða frá og skella mér svo í heitt bólið heima.
Kommentakerfi, linkar og svoleiðis bull meiga bíða betri tíma, Adios :)