Kaffi
Það eru rúm 8 ár síðan ég byrjaði að drekka kaffi. Ég man að á þeim tíma átti ég kærasta sem var mikill kaffidrykkjumaður, og honum fannst alveg ómögulegt að ég skyldi ekki drekka þennan eðal drykk. Hann stakk uppá því að ég myndi smakka swiss mokka, sem er einskonar kakó með kaffi og rjóma. Það vandist vel en ég var ekki alveg á því að ég myndi nokkurn tímann hætta mér í alvöruna.
Nema einn daginn sátum við með nokkrum öðrum á kaffihúsi og einhver tekur af skarið og pantar kaffi á línuna. Ég var náttúrulega svo feimin að ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að gefa frá mér píp um að ég drykki ekki "alvöru" kaffi. Ég sat því uppi með kaffi í bolla og 8 augu sem biðu eftir að ég drykki þeim til samlætis. Ég smellti tveimur molum í bollann, hrærði vel í og lét svo vaða. Ég get ekki sagt að þetta hafi verið gott svona í fyrstu skiptin, en þetta vandist ansi fljótt. Nema aumingja kærastinn sem var háskólakúristi í erfiðu námi þurfti að hafa mig í koffínvímu með óstöðvandi munnræpu við hlið sér til 3-4 á nóttunni. Sambandið entist ekki lengi...
Fyrir nokkrum mánuðum ákvað ég að taka mér smá kaffihvíld. Ég var farin að drekka óhóflega mikið kaffi í vinnunni, 7-8 bolla á dag. Svo ég keypti mér koffínlaust te og fór að venja mig frekar á það. Það gekk ágætlega, en ég var hálf dottandi allan daginn fyrir framan tölvuna í vinnunni fyrstu vikuna.
Fyrir ca. viku síðan hitti ég vinkonu mína á kaffihúsi í hádeginu og ákveð að prófa að fá mér kaffibolla. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði restina af deginum, ég iðaði öll og gat ekki setið kyrr, fékk meira að segja hálfgerðan spennuhnút í magann ofan á alltsaman. Þannig að ég er ennþá í kaffipásu og ætla mér að vera í henni eitthvað lengur.
Hafið það gott í dag :)
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home