Nappaði Adda frænda og pabba á leiðinni á haugana í fyrradag. Héldu að þeir kæmust upp með að henda þessum "fínu" eldhússtólum *piff* Nei, maður hendir sko ekki fjörtíu ára gömlum útslitnum stólum, hverslags hneisa. Þetta er sko íslensk hönnun frá stál húsgögnum!!
Pabbi horfði á mig tortryggnum augum og var ekki alveg að tengja þegar ég hljóp öskrandi á eftir bílnum, "hva" sagði hann "heldurðu svo að ég ætli að geyma þá inní bílskúr fyrir þig næstu 10 árin, hmmm...." Þrjóskupúkinn ég stórefldist náttúrulega við þessi orð, svo ég sagði "nei ég kippi þeim bara með mér núna!" Ég brunaði auðvitað beint í rúmfatalagerinn að kaupa áklæði á þessa blessuðu stóla, "ég skal sko sýna kallinum í eitt skipti fyrir öll að ég get þetta alveg" hugsaði ég.
Þegar ég kom heim settist ég svo út á stétt og fór að taka gamla eða réttara sagt gömlu áklæðin af, því augljóslega hafði einhver fengi þessa sömu snilldar hugmynd einhverjum árum fyrr.
Þegar ég var svo ca. hálfnuð með setuna á öðrum stólnum fóru að renna á mig tvær grímur. Ég var örugglega búin að rífa einhver 300 heftir úr stólnum og var rétt að byrja :/ En þrjóskan hafði yfirhöndina í þetta sinn, því einhverjum 4 tímum og tveimur kaffibollum síðar var ég loksins búin að strípa stólana.
Seinna um daginn komst ég svo að því, að það er ekki auðveldur leikur að fá lánaða heftibyssu, það á enginn heftibyssu. Ég hringdi í alla sem mér datt í hug, bankaði meira að segja á allar hurðir í blokkinni og spurði eftir græjunni, en ekkert gekk :(
Svo ef þú átt heftibyssu og langar að lána mér hana eina kvöldstund eða svo, þá máttu endilega hafa samband. Þú færð koss að launum, annars er alltaf hægt að semja ;)