LETURÁST
- Stutt ástarsaga
Þetta byrjaði allt þegar ég var 13 ára. Þá kynntist ég einni ungri sem hét "Verdana" og mér þótti hún einkar falleg. Ég gat valið á milli hennar og "Times New Roman" sem mér þótt alltaf vera frekar lauslát, mér fannst allir vera að nota hana. Ég valdi "Verdönu" og við áttum í ástríðufullu sambandi í 2-3 ár. Ég hélt nokkrum sinnum framhjá henni með "Arial", en það hafði enga þýðingu. Ég stóð mig oft að því að líta þá sem voru með "Times" hornauga og kunni alls ekki að meta hana.
Svo þegar ég var 17 ára fór ég á skemmtistað sem hét "G4" og var svaklega flottur. Þar fann ég ótrúlega mikið af laglegum týpum, sem voru hver annarri fegurri. Sú sem mér fannst standa uppúr var "Avenir" og það var það ást við fyrstu sýn. Við vorum saman í rúmlega ár.
Eftir að ég hætti með henni tók við einhvers konar tilraunastarfsemi. Ég hitti fullt af mismunandi týpum en engin gerði mig virkilega ánægðan. Þetta voru allt stutt sambönd sem skildu lítið eftir sig. Það var ekki fyrr en ég varð 19 ára sem ég hitti eina dúndurflotta, en hún hét "Helvetica" og var frá Sviss. Hún veitti mér lífsfyllingu sem ég hafði ekki upplifað áður.
Svo varð ég tvítugur og við fórum að þroskast í sitthvora áttina. Ég varð aftur einn á báti. Þá hitti ég eina sem hét "Garamond", og sú var flott. Ég féll í stafi og var orðlaus þegar ég sá hana. Þvílík týpa! Og hún hafði verið fyrir framan augun á mér allan tímann! Og Garamond var frábrugðin öllum hinum að því leitinu til að hún var eldri, reyndari og tígulegri. Við vorum saman í 5 mánuði og það var lítið um framhjáhald. Þá fyrst sá ég hvað "Garamond" og "Times" voru líkar og ég sá eftir því að hafa sniðgengið hana hér áður fyrr.
Ég kynntist nokkrum vinkonum "Garamöndu" sem allar voru álíka flottar, t.d. "Trajan", "Utopia", "Cochin" og svo auðvitað "Sabon" sem var tvíburasystir "Garamond". Við hittumst nokkrum sinnum en svo frétti hún af því og sambandið leystist upp. Stuttu seinna kynntist ég "Caslon" sem var sú allra fallegasta sem ég hafði hitt. Við fórum að búa saman og þó hún væri einstæð móðir þá lét ég það ekki á mig fá. Fegurð hennar yfirskyggði allt annað!
En einn dag í skólanum var ég látinn vinna verkefni með einni sem hét "Meta" og átti strangan þýskan pabba sem hét Erik Spiekermann. Hún var frekar þurr og óspennandi, en útaf skólanum neyddist ég til þess að hanga og vinna með henni. Það varð til þess að "Caslon" fékk minni athygli og því hættum við saman í fússi og ég ákvað að hætta að vera með þessum eldri týpum í smá tíma.
Það var ekki fyrr en núna í sumar sem ég hitti eina gullfallega. Hún er ein af þeim fallegustu sem ég hef nokkru sinni verið með. Og ég elska hana. Pabbi hennar heitir Adrian Frutiger og er frekar hress gaur. Ég ætla ekki að segja frá nafni hennar því þá gæti einhver reynt að stela henni frá mér.
Kannski eigum við samt eftir að hætta saman, maður veit aldrei. En það eru fleiri fiskar í sjónum. Og það skiptir ekki máli hvort hún sé ný eða gömul. Það skiptir bara máli að hún hæfi þér og þínum verkefnum hverju sinni.
Og ef þú finnur ekki þína týpu, þá er tæknin orðin þannig að þú getur bara búið hana til sjálfur. Er ekki letrið yndislegt?
Jói Jói
Hahahaha, mér finnst þetta svo mikil snilld, efast um að flest ykkar fatti þetta, en VÁ....... varð að setja þetta hérna inn. Þið getið lesið meira á Icelandicnationalteam í umræðunni um uppáhalds fontinn :)